Eftir stutta hlaupapásu fór ég í þrjár vikur til Los Angeles, eitthvað sem ég hef verið að gera árlega eins og margir vita. Þetta var í 5.skiptið sem ég fer þangað. Það eru margar ástæður fyrir því að ég vel þennan stað og hér eru nokkrar: Líður eins og heima hjá mér (ef það má orða það svoleiðis), elska sólina og hitan, fjölbreytt svæði (margt að gera), ótrúlega næs að æfa (margir brautarvellir, ræktir og fleira), gott "vibe", skemmtilegt fólk og auðvelt að kynnast fólki, það eru fleiri ástæður. Ég hef hugsað hvort ég eigi að prófa nýjan stað, auðvitað ferðast ég annað líka en fyrir þetta langan tíma held ég að Los Angeles, Santa Monica sé besti staðurinn.

Ég fékk þær fréttir stuttu áður en ég fór þangað að ég hefði verið valin í landsliðið í Norðurlandamótið í Víðavangshlaupum sem var þá sirka tveimur vikum eftir að ég kem heim eftir þetta þriggja vikna ferðalag. Ég var komin með gott hlaupaplan þar sem ég átti að taka hátt uppí 100km í viku, 3 hraðaæfingar í viku, en venjulega er ég að hlaupa 60-70km í viku á Íslandi. Náði sirka að halda plani en labbaði mikið auk þess sem ég var dugleg að gera í styrktaræfingar þarna í þessari frábæru rækt, John Reed. Hraðaæfingarnar í svona æfingaferð þegar maður er að hlaupa svona mikið magn verða aldrei eins hraðar og vanalega, en það er eðlilegt útaf maður er með þreyttari fætur þar sem maður er að æfa meira, en effortið á hraðaæfinguni skiptir máli og það klárlega telur. Ég fann það að þegar ég kom heim að þessi æfingaferð hafði mjög góð áhrif. Ég æfði alltaf á brautarvelli þarna sem var frekar nálægt staðnum sem ég gisti, en sá völlur heitir Santa Monica College.
Þessi LA ferð snérist semsagt mikið um æfingar, enda var fókusinn alltaf að hugsa þetta sem æfingaferð. En auðvitað var maður að njóta líka á þessum frábæra stað, kynntist fólki, prófaði nýja veitingastaði, verslaði, hljóp með Venice run club, fór á ströndina og fleira fleira.